Máritíus
Máritíus er eyríki á Indlandshafi, um 900 km austur af Madagaskar og um 2.000 km austan við meginland Afríku. Auk Máritíus eru eyjarnar Saint Brandon, Rodrigues og Agalegaeyjar hluti ríkisins. Máritíus er hluti af Mascarenhas-eyjaklasanum ásamt frönsku eyjunni Réunion, sem liggur 200 km í suðvestur. Höfuðborg Máritíus og stærsta borg landsins er Port Louis á eyjunni Máritíus, þar sem flestir íbúanna búa. Eyjarnar ná samanlagt yfir 2.040 ferkílómetra, en landhelgin nær yfir 2,3 milljónir ferkílómetra.
Arabar hafa líklega uppgötvað Máritíus fyrstir um 975 og nefnt hana Dine Arabi. Þegar Portúgalar uppgötvuðu eyjarnar árið 1507 voru þær óbyggðar. Hollendingar gerðu tilkall til Máritíus 1598 og stofnuðu þar nýlendu árið 1638. Þeir nefndu eyjuna eftir þjóðhöfðingja sínum Maurits van Oranje, en hurfu þaðan árið 1710. Fimm árum síðar stofnuðu Frakkar nýlendu á eyjunni og nefndu hana Isle de France. Í Napóleonsstyrjöldunum hertóku Bretar eyjuna og Frakkar gáfu hana form...Lesa meira
Máritíus er eyríki á Indlandshafi, um 900 km austur af Madagaskar og um 2.000 km austan við meginland Afríku. Auk Máritíus eru eyjarnar Saint Brandon, Rodrigues og Agalegaeyjar hluti ríkisins. Máritíus er hluti af Mascarenhas-eyjaklasanum ásamt frönsku eyjunni Réunion, sem liggur 200 km í suðvestur. Höfuðborg Máritíus og stærsta borg landsins er Port Louis á eyjunni Máritíus, þar sem flestir íbúanna búa. Eyjarnar ná samanlagt yfir 2.040 ferkílómetra, en landhelgin nær yfir 2,3 milljónir ferkílómetra.
Arabar hafa líklega uppgötvað Máritíus fyrstir um 975 og nefnt hana Dine Arabi. Þegar Portúgalar uppgötvuðu eyjarnar árið 1507 voru þær óbyggðar. Hollendingar gerðu tilkall til Máritíus 1598 og stofnuðu þar nýlendu árið 1638. Þeir nefndu eyjuna eftir þjóðhöfðingja sínum Maurits van Oranje, en hurfu þaðan árið 1710. Fimm árum síðar stofnuðu Frakkar nýlendu á eyjunni og nefndu hana Isle de France. Í Napóleonsstyrjöldunum hertóku Bretar eyjuna og Frakkar gáfu hana formlega eftir fjórum árum síðar. Yfirráð yfir eyjunni Tromelin eru enn umdeild þar sem hún var ekki nefnd í friðarsáttmálanum. Breska nýlendan Máritíus náði yfir Rodrigues, Agalega, St. Brandon, Tromelin og Chagos-eyjar, auk Seychelles-eyja til 1906. Efnahagur Máritíus byggðist aðallega á plantekruræktun meðan landið var undir breskri stjórn til 1968. Máritíus er núna lýðveldi innan Breska samveldisins.
Árið 1965, þremur árum áður en Máritíus fékk sjálfstæði, voru Chagos-eyjar aðskildar frá nýlendunni, um leið og eyjarnar Aldabra, Farquhar og Desroches voru aðskildar frá Seychelles-eyjum. Þessar eyjar mynduðu Breska Indlandshafsumdæmið. Íbúar Chagos-eyja voru reknir frá eyjunum og stærsta eyjan, Diego Garcia, leigð út til Bandaríkjahers. Bretar hafa takmarkað umferð til eyjanna. Máritíus gerir tilkall til Chagos-eyjaklasans sem er 1.287 kílómetra norðaustur af eyjunum. Í febrúar 2019 gaf Alþjóðadómstóllinn út ráðgefandi álit varðandi það að Bretland skilaði Máritíus Chagos-eyjum eins hratt og auðið væri til að eyjarnar fengju fullt sjálfstæði.
Vegna staðsetningar og sögu Máritíus eru íbúar eyjanna af fjölbreyttum uppruna og flestir tala mörg tungumál. Máritíus er eina Afríkuríkið þar sem hindúatrú er algengustu trúarbrögðin. Ekkert opinbert tungumál er á Máritíus en algengustu málin sem eru töluð eru máritíska (kreólamál), enska og franska. Stjórnarfar á eyjunum byggist á Westminster-kerfinu. Máritíus situr hátt á listum yfir lýðræði, frelsi og athafnafrelsi. Samkvæmt Heimsbankanum er Máritíus flokkað sem hátekjuland og eitt af þróuðustu hagkerfum Afríku. Máritíus er velferðarríki þar sem ríkið sér íbúum fyrir ókeypis heilbrigðisþjónustu, menntun, og almenningssamgöngum fyrir námsmenn, aldraða og fatlaða. Máritíus er friðsælasta Afríkuríkið samkvæmt Friðarvísitölunni 2019.
Ásamt öðrum eyjum Mascarenhas-eyjaklasans eru eyjarnar þekktar fyrir fjölbreytt og sérstætt lífríki þar sem lifa margar einlendar tegundir. Máritíus er þekkt sem fyrrum heimkynni dúdúfuglsins sem varð aldauða þar eftir miðja 17. öld.
Bæta við nýjum ummælum